Námskeið Hans-Ola Eriksson

Hans-Ola Eriksson var með meistarakúrs í orgelleik dagana 10. -12. janúar 2002 í Hallgrímskirkju.
Viðfangsefnið var frönsk orgeltónlist frá 19. og 20. öld. Hann hélt síðan tónleika í Hallgrímskirkju á vegum Listavinafélags Hallgrímskirkju sunnudaginn 13. janúar kl. 17.00 þar sem frönsk orgeltónlist var í öndvegi.

Hans-Ola Ericsson er fæddur í Stokkhólmi árið 1958 og starfar sem prófessor við Tónlistarháskólann í Piteå í Svíþjóð en ferðast jafnframt víða sem gestakennari. Hann hefur haldið tónleika um víða veröld, í Evrópu, Kanada, Bandaríkjunum og Japan. Hann hefur einnig leikið inn á hljómplötur, og sérstaklega hafa upptökur hans með verkum Oliviers Messien hlotið lof gagnrýnenda.

Hans-Ola hlaut tónlistarmenntun sína í Stokkhólmi og í Freiburg og stundaði auk þess framhaldsnám í USA og í Feneyjum. Þeir kennarar sem mest áhrif höfðu á hann voru Torsten Nilsson, Klaus Huber og Luigi Nono. Árið 1989 var hann ráðinn prófessor við Tónlistarháskólann í Piteå í Svíþjóð. Sumarið 1990 kenndi hann við sumarnámskeiðin í Darmstadt og hlaut Kranichstein tónlistarverðlaunin.

Hans-Ola hefur ávallt haldið merkjum vandaðrar nútímatónlistar hátt á lofti og stuðlað að flutningi hennar. Hann hefur unnið með mörgum leiðandi tónskáldum við að undirbúa verk þeirra til flutnings, meðal þeirra má nefna John Cage, György Ligeti og Olivier Messiaen.

Hans-Ola var verkefnisstjóri fyrir “Overtorneå-verkefnið” sem snérist um ítarlega gagnasöfnun, endurbyggingu og varðveislu orgels þýsku kirkjunnar í Stokkhólmi, sem talið er hið merkasta meðal sænskra orgela frá barrokktímanum.

Hans-Ola hefur verið gestaprófessor við tónlistarakademíurnar í Riga, Helsinki, Kaupmannahöfn og Amsterdam og auk þess haldið fyrirlestra og kennt við leiðandi orgelhátíðir og kennslustofnanir um víða veröld, og verið dómari í alþjóðlegum orgelkeppnum.

Árið 1996 var hann fastráðinn sem gestaprófessor við “Hochschule für Künste” í Bremen. Vorið 2000 var hann valinn félagi í Konunglegu sænsku Tónlistarakademíunni og einnig hlaut hann verðlaun Félags sænskra tónskálda fyrir túlkun árið 1999.

Hans-Ola Ericsson er aðal gestaorganisti og listrænn ráðunautur fyrir orgelhátíðina í Lahti í Finnlandi.