Námskeið í kórstjórn í Skálholti 11.-15.ágúst 2002

Kórstjórnarnámskeið fyrir stjórnendur barnakóra hafa verið haldin á vegum embættis Söngmálastjóra þjóðkirkjunnar í áratug.

Margrét Bóasdóttir, sem til ársins 2000 bar ábyrgð á starfi barnakóra við kirkjur, hefur annast undirbúning og umsjón allra námskeiðanna utan eins, og hafði einnig veg og vanda af þessu. Ár hvert hefur verið fenginn sérstakur leiðbeinandi erlendis frá auk íslenskra.

Leiðbeinandi að þessu sinni var Lynnel Joy Jenkins, ein þriggja stjórnenda The American Boy Choir í Princeton. Lynnel er fyrsta konan og fyrsti afríski ameríkaninn sem ráðinn er til drengjakórsins, og miðlaði hún 36 kórstjórum, víðs vegar að af landinu, af þekkingu sinni bæði af kórvinnu með börnum, kórstjórnartækni og kynningu á amerískri kórtónlist. Það var mikið sungið, leikið og dansað af afrískri list í Skálholti þessa daga og var mál manna að þetta væri eitt albesta námskeiðið af öllum góðum, undanfarin 9 ár. Óvissuferðin sem að þessu sinni var kölluð þriggja kirkna ferðin, árviss og jafn óborganleg kvöldvaka þátttakenda, ásamt þátttöku í tíðagjörð Skálholtskirkju var svo umgjörðin sem gerði dvölina að innihaldsríkri samveru tónlistarfólks í starfi fyrir kirkjuna.