Námskeið Mattiasar Wager (sept. 2001)

Von er á sænska orgelleikaranum Mattias Wager til landsins um helgina, en hann mun halda námskeið í litúrgískum orgelleik og spuna dagana 24.-26. september á vegum Tónskóla Þjóðkirkjunnar.

Sænski orgelleikarinn Mattias Wager er íslendingum ekki ókunnur, hann hefur komið hingað til tónleikahalds, m.a. með Erik Westberg vocal emsemble síðast nú í sumar og slagverksleikaranum Anders Åstram en þeir félagarnir hafa tekið upp geisladisk í Hallgrímskirkju.

Mattias Wager er fæddur í Stokkhólmi 1967. Hann nam kirkjutónlist og orgelleik við Konunglega Tónlistarháskólann í Stokkhómi og lauk þar einleikarprófi með glæstum vitnisburði í orgelleik og spuna. Kennarar hans voru Torvald Torén (orgel) og Anders Bondeman (spuni). Námstyrkir gerðu honum einnig kleift að læra erlendis hjá Johannes Geffart í Bonn og Naji Hakim í París. Árið 1995 sópaði Wager að sér verðlaunum í alþjóðlegum keppnum, hann vann International Interpretation Competition í St. Albans í Englandi og sama ár Grand Prix d´improvisation “Pierre Cochereau”, og Prix Maurice Duruflé við fyrstu International Organ Competition sem skipulögð var af Parísarborg. Hann hafði áður unnið fyrstu verðlaun í alþjóðlegri orgelspunakeppni í Strängnäs í Svíþjóð og komist í úrslit í annarri alþjóðlegri spunakeppni í Haarlem í Hollandi 1992 og 1994. Mattias hefur ferðast og haldið tónleika um mestalla Evrópu og einnig Brasilíu.Upptökur hafa verið gerðar með honum bæði fyrir útvarp og hljómdiska. Á árunum 1993-1997 kenndi Mattias orgelleik og spuna við Háskólann í Piteå í norður Svíþjóð. Frá 1998 -2002 var Mattias Wager búsettur í Malmö, og kenndi orgelleik og spuna við tónlistardeild háskólans þar. Hann kennir einnig við Háskólann í Gautaborg og er eftirsóttur sem gestakennari. Matthias býr nú í Stokkhólmi.