Tónskóli Þjóðkirkjunnar á tímamótum

Tónskóli þjóðkirkjunnar hefur verið starfandi síðan embætti söngmálastjóra Þjóðkirkjunnar var sett á laggirnar fyrir um 60 árum…

Tónskóli Þjóðkirkjunnar á tímamótum (fréttatilkynning ágúst 2001)

Tónskóli þjóðkirkjunnar hefur verið starfandi síðan embætti söngmálastjóra Þjóðkirkjunnar var sett á laggirnar fyrir um 60 árum. Starfsemin var fyrst einkum í námskeiðaformi en þróaðist siðar í 9 mánaða tónlistarskóla sem hefur sinnt vaxandi þörf fyrir menntaða organista við kirkjur landsins. Verðandi organistar hafa sótt þangað tilsögn í orgelleik, píanóleik, söng og kórstjórn auk sérfaga eins og kirkjutónlistarsögu, sálmafræði, liturgíu og gregorsöng. Starfandi organistar hafa einnig notið góðs af námsframboði skólans.

Skólinn hefur starfað undir yfirstjórn söngmálastjóra þjóðkirkjunnar Hauks Guðlaugssonar en yfirkennari hefur verið Smári Ólason. Kirkjuráð skipaði fyrir skömmu nýja stjórn skólans samkvæmt nýjum starfsreglum um söngmál og tónlistarfræðslu á vegum þjóðkirkjunnar. Í henni sitja Hörður Áskelsson formaður, tilnefndur af Félagi Íslenskra organista, Kristján Valur Ingólfsson, varaformaður, tilnefndur af Guðfræðideild Háskóla íslands og Ólöf Kolbrún Harðardóttur tilnefnd af kirkjuráði.

Þessarri nýju skólastjórn er ætlað að sjá til þess að á vegum Tónskóla Þjóðkirkjunnar sé kennsla í kirkjutónlist og litúrgískum fræðum, organistar séu menntaðir til starfa og að þau sem koma að kirkjulegu starfi, svo sem organistar, kirkjukórar og annað tónlistarfólk eigi aðgang að stuðningi, aðstoð og ráðgjöf á sviði söng og tónlistarmála. Nú í sumar er Haukur Guðlaugsson söngmálastjóri þjóðkirkjunnar að láta af störfum eftir 27 ára farsælt starf. Á sama tíma er að fara af stað endurskoðun fræðslumála kirkjunnar. Einnig er að taka til starfa tónlistardeild við Listaháskóla Íslands. Í ljósi allra þessarra breytinga og með tilliti til síbreytilegra aðstæðna í þjóðfélaginu kaus stjórnin að fresta því að auglýsa embætti söngmálstjóra en ráða starfsmann til skemmri tíma. Kristinn Örn Kristinsson píanóleikari og tónlistarkennari hefur verið ráðinn til að vinna með nefndinni og veita Tónskólanum forstöðu næsta ár.

Stjórnin mun ásamt honum skoða vandlega framtíðarskipulag þessarra mála og vinna að þeim á breiðum grundvelli Við Tónskóla Þjóðkirkjunnar bíða ýmis spennandi verkefni, starfandi verður framhaldsdeild fyrir organista sem þegar hafa lokið kantorsprófi frá skólanum. Skoðaðir verða möguleikar á endurmenntunarnámskeiðum og jafnvel fjarkennslu eða útibúum á landsbyggðinni.

Jafnframt þessu er auglýst eftir nýjum nemendum og getur nám við skólann verið kjörinn valkostur fyrir píanónemendur sem eru komnir áleiðis í námi svo og starfandi tónlistarfólk sem vill breyta til og kynnast nýju starfsumhverfi.

Starf organista er mjög fjölbreytt og skapandi en líka gefandi. Þeir móta tónlistarumhverfi kirkjunnar, en tónlist við hinar ýmsu athafnir leikur við sálarstrengi viðstaddra og dýpkar upplifun þeirra, bæði í gleði og sorg. Organistar þjálfa kóra og leika með öðru tónlistarfólki. Sjá má aukna fjölbreytni í tónlistariðkun við kirkjur landsins og starf barnakóra við kirkjur fer vaxandi. Á landinu eru nú starfandi um 140 organistar.