Tónlistarstefna

Tónlistarstefna Þjóðkirkjunnar

Musica praeludium vitae aeterna. Tónlistin er forspil eilífðarinnar.

Grundvöllur og hlutverk

Öll list sem er sönn og ekta og sprettur úr heilindum hugar og hjarta er Guði þóknanleg. Kirkjan vill hlúa að allri list sem eflir lífið gegn upplausn og dauða.

Biðjandi, boðandi, þjónandi kirkja er syngjandi kirkja. Guðsþjónusta hennar er lofgjörðarfórn í heilagleika og fegurð, Guði til dýrðar og söfnuði Krists til uppbyggingar í trú, von og kærleika.

Kristin tilbeiðsla og heilög iðkun er þjálfun fyrir eilífðina. Söngur og tónlist, talað orð og atferli skal vitna um himneskan ilm og guðdómlega fegurð, og sannleika sem við fáum um síðir að sjá og reyna hjá Guði og englum hans.

Mannsröddin sjálf er fegursta hljóðfæri tilbeiðslunnar.

Í stefnu- og starfsáherslum Þjóðkirkjunnar 2004-2010 segir svo um helgihald og kirkjutónlist:

 • Með helgihaldi er átt við allar athafnir safnaðarins þar sem helgihald fer fram, þar með talið almennar guðsþjónustur, bænastundir, sunnudagaskóla, skírn, hjónavígslur og jarðarfarir.
 • Með kirkjutónlist er einkum átt við tónlist helgihaldsins, bæði tón presta og forsöngvara, sálma og undirleik.

Í markmiðslýsingunni með helgihaldi og kirkjutónlist segir svo m.a í stefnu- og starfsáherslum Þjóðkirkjunnar 2004-2010:

 • Markmið helgihalds Þjóðkirkjunnar er að næra samfélag Guðs og manns og samfélag þeirra er tilbiðja Guð. Við viljum að helgihaldið sé fjölbreytt og höfði til allra. Við viljum auka fjölbreytni í kirkjutónlist og listiðkun í helgihaldi.

Meginstefna

Meginstefna Þjóðkirkjunnar varðandi kirkjutónlist er sem hér segir:

1. Kirkjusöngurinn

 • Styðja skal störf organista og kirkjukóra, unglingakóra og barnakóra sem mikilvægan þátt í hefðbundnu helgihaldi og öllu kirkjulegu starfi.
  • Hvetja skal organista og kóra til að taka virkan þátt í mótun helgihalds og kirkjustarfsins.
  • Organistar og kirkjukórar stuðli jafnframt að því að efla safnaðarsöng.
  • Efla skal barnakóra sem mikilvæga leið í barnastarfi og trúaruppeldi 
 • Leggja skal rækt við almennan söng safnaðarins.
  • Þau sem vilja iðka og næra trú sína taki undir söng við guðsþjónustur og annað samkomuhald í kirkjunni.
  • Prestar og söngstjórar styðji almennan söng við kirkjuathafnir svo sem útfarir, hjónavígslur, skírnir og fermingar.
 • Tónlist og textar samrýmist tilefni og umhverfi helgidómsins.
  • Prestar og organistar bera ábyrgð á tónlistinni við allar kirkjuathafnir.
  • Meginreglan sé sú að nota lifandi tónlist við athafnir kirkjunnar.
  • Hvatt skal til fjölbreytni hljóðfæra við helgihaldið, einkum þegar börn og fullorðnir úr söfnuðinum geta auðgað það með list sinni og gáfu.
  • Textar séu yfirleitt á íslensku og hæfi tilefni og umhverfi helgidómsins.
  • Öll tónlist skal þjóna til uppbyggingar í söfnuðinum
  • Kirkjutónlistin þjónar Orðinu.
 • Við guðsþjónustur og annað helgihald skal að jafnaði nota Sálmabók kirkjunnar og Handbók kirkjunnar.
  • Nota má sálma og söngva utan Sálmabókar ef prestur og organisti eru sammála um það.
  • Við endurskoðun Sálmabókar og Handbókar, verði tekið mið af heildarstefnu og starfsáherslum kirkjunnar svo og þróun mála í systurkirkjum og áherslu á samfélagi hinnar almennu kirkju um allan heim.
  • Aðgengilegar skulu vera (t.d. á vefsíðum kirkjunnar) sem fjölbreytilegastar útsetningar sálmalaga.
 • Kirkjan leggur rækt við eigin hefðir og brúar jafnframt bilið milli þjóðlegra hefða og kirkjulegra.
  • Þjóðkirkjan leitast jafnt við að varðveita og nýta tónlistararfin og styðja eftir mætti nýsköpun í kirkjusöng, bæði texta og tóni.
 • Í samræmi við eðli guðsþjónustunnar er hún haldin hátíðleg með söng þar sem söfnuðurinn allur er virkur.
  • Frumskylda prestsins er að leiða guðsþjónustu safnaðarins í samstarfi við sóknarnefnd, organista og annað starfsfólk safnaðarins. Helgihald safnaðanna á hverjum stað fer eftir kringumstæðum þeirra.
  • Almennur safnaðarsöngur hæfir jafnan helgihaldi og helgidómi með eða án undirleiks.
  • Skortur á organista og kór komi ekki í veg fyrir guðsþjónustu safnaðarins.
  • Vægi og umfang tónlistarstarfs safnaðanna skal taka mið af fjárhag og heildarþörf safnaðarstarfsins.

2. Námskeið, fræðsla og tónlistarefni.

 • Biskupsstofa haldi námskeið fyrir kirkjutónlistarfólk og aðra (fræðslusvið, Leikmannaskólinn) og gefi út kennsluefni (Kirkjuhúsið):
  • Námskeið um trú og siði, lög og reglur Þjóðkirkjunnar.
  • Námskeið um sálma og í sálmasöng.
  • Kirkjutónlistarefni.
  • Leiðbeiningarefni um helgihald og trúariðkun.
  • Leiðbeiningar til presta um tónsöng og framsögn.
 • Prestar, organistar og annað starfsfólk kirkjunnar stuðli að því að börn og unglingar læri sálma.
  • Kenndir verði sálmar og vers í barnastarfi og fermingarfræðslu.
  • Bjóða skal til söngstunda í kirkjum þar sem ungum sem eldri er gefið tækifæri til að syngja saman sálma.
  • Leitað verði samstarfs við skólana í þessu skyni.
 • Auðvelda skal söfnuðum um land allt til að hafa menntaða organista í starfi.
  • Tónskóli Þjóðkirkjunnar skal koma upp starfsstöðvum skólans í samvinnu við tónlistarskóla utan Reykjavíkur.
  • Söfnuðir styðji efnilegt tónlistarfólk til náms, vilji það starfa í kirkjunni.
 • Styðja skal sérstaklega tónlistarmenn sem ekki hafa tilskylda kirkjutónlistarmenntun, en ráðnir eru í störf organista.
  • Með námskeiðum um trú og siði og helgihald Þjóðkirkjunnar.
  • Með námskeiðum um lög og reglur Þjóðkirkjunnar.
  • Með leiðsögn Tónskóla Þjóðkirkjunnar í kirkjusöng og tónlist. 

3. Yfirumsjón kirkjutónlistarinnar

 • Biskup Íslands skipar söngmálastjóra til þess að hafa umsjón með kirkjutónlistinni.