Tónskólinn á Vestfjörðum

Undanfarna tvo vetur hefur Tónskóli þjóðkirkjunnar boðið upp á nám í kirkjutónlist fyrir organista á Vestfjörðum. Einn mikilvægur þáttur organistanámsins er nám í kórstjórn. Tónskólinn hefur verið í samstarfi við Tónlistarskólann á Ísafirði í vetur og hefur Beata Joó kennari við skólann kennt kórstjórnarnemum. Hafa 8 nemendur stundað námið, bæði organistar og einnig nemendur og kennarar við TÍ.

Á myndinni má sjá nemendur, kennara og skólastjóra Tónskólans að loknu prófi.IMG_0654

Kvöldbænir og Davíðssálmar

Kammerkór tónlistardeildar Listaháskóla Íslands flytur kvöldbænir og Davíðssálma eftir íslensk tónskáld í Laugarneskirkju þriðjudagskvöldið 15.mars klukkan 20:30.
Stjórnandi kórsins er Steinar Logi Helgason.

Masterklasse

Norski orgelleikarinn Inger-Lise Ulsrud kennir orgelnemendum Listaháskóla Íslands og Tónskóla Þjóðkirkjunnar dagana 11. og 12. febrúar n.k. frá kl. 13-17 í Hallgrímskirkju í Reykjavík.
Námskeið Inger-Lise verður tvíþætt, annars vegar orgelbókmenntir og hins vegar litúrgískt orgelspil og spuni.
Námskeiðin eru opin nemendum LHÍ og félögum í FÍO.
Sunnudaginn 14. febrúar kemur Inger-Lise svo fram á tónleikum í Hallgrímskirkju á vegum Listvinafélags kirkjunnar. Tónleikarnir bera yfirskriftina Agnus Dei og eru helgaðir föstutónlist.

Aftansöngur í Laugarneskirkju

Laugardaginn 23. janúar kl. 17 verður aftansöngur (evensong) í Laugarneskirkju. Tónlistin verður í höndum nemenda í kórstjórn við Tónskóla Þjóðkirkjunnar og Listaháskóla Íslands. Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir leiðir stundina.

Evensong er aldagamalt form með ríkulegri tónlist, upprunninn í Englandi. Þar skiptast á lestrar og söngvar eftir ákveðinni fyrirmynd, og gegna Biblíuljóð stóru hlutverki.

Útskriftartónleikar Sólveigar Önnu Aradóttur

Þriðjudaginn 15. desember kl. 19.30 verða útskriftartónleikar Sólveigar Önnu Aradótttur í Fríkirkjunni í Reykjavík af Skapandi tónlistarmiðlun frá Listaháskóla Íslands.
Tónleikar hennar verða bæði orgel- og kórtónleikar auk þess sem hún stjórnar barnakór. Tónleikarnir verða í formi jólaguðsþjónustu sem á rætur að rekja til Kings College Chapel í Cambridge og ber heitið Níu lestrar og söngvar.

Framhaldsprófstónleikar Steinunnar Árnadóttur

Í tengslum við framhaldspróf Steinunnar Árnadóttur verða tónleikar í Hjallakirkju fimtudaginn 10. desember kl. 20.00. Á tónleikunum flytur Steinunn verk eftir Dietrich Buxtehude, Johann Sebastian Bach, Felix Mendelssohn-Bartholdy, Jón Þórarinsson, Jón Ásgeirsson og Þorkel Sigurbjörnsson.

Jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar 2015

Tvennir tónleikar verða á vegum Tónskólans fyrir jólin.
Tónleikar kirkjutónlistarbrautar Listaháskóla Íslands verða haldnir í Hallgrímskirkju miðvikudaginn 9. desember kl. 17.
Þar leikur Steinar Logi Helgason orgelverk eftir Johann Sebastian Bach og Olivier Messiaen.

Jólatónleikar Tónskólans verða haldnir í Langholtskirkju föstudaginn 11. desember kl. 17. Þar koma fram nemendur skólans í kórstjórn og orgelleik.
 Á tónleikunum verða flutt verk tengd aðventu og jólum.

Framhaldsprófstónleikar Ástu Haraldsdóttur

Í tengslum við framhaldspróf Ástu Haraldsdóttur verða tónleikar í Kópavogskirkju föstudaginn 27. nóvember kl. 18.30. Þar flytur Ásta verk eftir Johann Sebastian Bach, Tomaso Albinoni, Georg Friedrich Handel, Bohuslav Martinu og César Franck. Á tónleikunum koma einnig fram Ewa Tosik fiðluleikari og Ragnhildur D. Þórhallsdóttir sópran.

Orgelklúbburinn Ludvig í heimsókn

Orgelklúbburinn Ludvig frá Þrándheimi heimsækir Ísland dagana 6.-10. nóvember.
Orgelklúbburinn var stofnaður með það að markmiði að kynna orgelið fyrir ungu fólki og laða það til starfa í kirkjunni.
Hópurinn kemur fram á tónleikum í Hallgrímskirkju laugardaginn 7. kl 12. Á tónleikunum koma einnig fram 4 nemendur Tónskólans. Þau koma einnig fram í messu í Laugarneskirkju sunnudaginn 8. kl. 11. Auk þess fara þau í skoðunarferðir og margt fleira.
Orgelklúbburinn er kenndur við tvo tónlistarmenn sem höfðu mikil áhrif í Þrándheimi; Ludvig Mathias Lindeman og Ludvig Nielsen.
Stofnandi klúbbsins og kennari er David-Scott Hamnes.

Tónskólamessa í Akureyrarkirkju

Dagana 15. – 17. október halda nemendur og kennarar Tónskólans í ferð til Akureyrar þar sem boðið verður uppá námskeið auk þess sem nemendur taka þátt í messu. Einnig fer hópurinn í ferð fram á Grund þar sem nýtt Klop-orgel kirkjunnar verður skoðað.
Laugardaginn 17. október kl. 11 verður haldin „Tónskólamessa“ í Akureyrarkirkju þar sem séra Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur messar. 
Þar munu nemendur Tónskólans í litúrgískum orgelleik og kórstjórn skipta með sér hlutverkum í messunni.
 Messan verður Barokkmessa þar lögð er sérstök áhersla á kirkjutónlist á barokktímanum. Í tengslum við messuna munu þeir Eyþór Ingi Jónsson organisti í Akureyrarkirkju og Pétur Halldórsson frá Barokksmiðju Hólastiftis halda fyrirlestur um talnaspeki barokksins sem ber yfirskriftina „tölur í tónlist“.